|
Kirkella H 7 á veiðum i Barentshafi mynd þorgeir Baldursson 2018 |
Flaggskip breska úthafsveiðiflotans er kvótalaust eftir Brexit. Það hefur í meira en mánuð verið bundið við bryggju í Hull.
Skipið er í eigu breska fyrirtækisins UK Fisheries, sem er í eigu Samherja og hollensks útgerðarfyrirtækis.
Eitt stærsta skip breska flotans, frystitogarinn Kirkella, kemst ekki til veiða vegna þess að samningur Evrópusambandsins við Noreg um veiðarnar féll úr gildi þegar Bretland gekk úr Evrópusambandinu nú um áramótin.
„Enginn getur haft efni á því að sitja á 50 milljón punda fiskiskipi aðgerðarlausu til eilífðarnóns,“ segir Trevor Datson, talsmaður útgerðarinnar.
Kirkella er 81 metra langur frystitogari, til þess að gera splunkunýr því aðeins tvö og hálft ár er síðan það kom nýtt til Bretlands. Skipið hefur stundað úthafsveiðar á þorski og ýsu í norskri lögsögu og við Svalbarða.
„Venjulega væri skipið á siglingu inn í norska lögsögu eða til Svalbarða á þessum tíma árs, að hefja veiðar. En við erum ekki með neinn kvóta núna,“ segir Datson.
Datson sagði þríhliða viðræður milli Noregs, Bretlands og Evrópusambandsins vera að fara af stað nú í vikunni, en í kjölfar þeirra þurfi síðan að fara fram tvíhliða viðræður milli Noregs og Bretlands.
Komið í óefni
Útgerðin hefur harðlega gagnrýnt bresk stjórnvöld fyrir að sinna þessu máli ekki fyrr en í óefni var komið.
„Bresk stjórnvöld hafa lengi vitað af því að þessi staða myndi koma upp. Við höfum talað um það í meira en tvö ár.“
Hann sagðist þó ekki telja að samningsgerðin við Noreg þurfi að vera flókin.
„Það sem við erum að fara fram á er bara framhald á því fyrirkomulagi sem verið hefur í gildi. Við höldum að Norðmenn myndu taka því fagnandi að gera samning við okkur því þeir þurfa að veiða í okkar lögsögu líka.“
Hann bendir hins vegar á að allt sem tengist sjávarútvegi verði iðulega býsna flókið viðureignar þegar á reynir.
„Við höfum sagt að hvenær sem tveir sjómenn koma saman þar eru strax komnar upp fjórar ólíkar skoðanir.“
Tjón fyrir marga
Datson segir efnahagslegt tjón vera töluvert, ekki aðeins fyrir útgerðina heldur ekki síður fyrir sjómennina og fjölskyldur þeirra.
„Við erum með hundrað manna áhöfn og fólk sem reiðir sig á Kirkella um framfærslu. Við erum líka með sögu úthafsveiða sem nær aftur í aldir.“
Hann sagðist þó bjartsýnn á að bresk stjórnvöld muni á endanum koma til móts við útgerðina.
Skipstjórarnir á Kirkella eru tveir og þeir eru báðir íslenskir, enda er Kirkella gert út af breska fyrirtækinu UK Fisheries, sem er í eigu Samherja og hollenska útgerðarfyrirtækisins Parlevliet & Van der Plas.
Engir hnökrar þrátt fyrir Brexit
Þrátt fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa þó engir hnökrar hafa orðið á útflutningi á íslenskum fiski til Grimsby eftir áramótin, að því er Martyn Boyer, framkvæmdastjóri fiskmarkaðarins í Grimsby (Grimsby Fish Market) segir.
Hann telur ekki að Brexit muni breyta neinu fyrir íslenskar sjávarafurðir í Bretlandi.
„Eftir frídaga um hátíðarnar eru hlutirnir hjá okkur aftur að komast í sitt vanalega horf með íslenska fiskinn. Í vikunni fengum við mjög góðar sendingar frá Íslandi án nokkurra truflana eða vandkvæða,“ sagði Boyer í lok síðustu viku þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann.
Hann segir Brexit vissulega vera umdeilt í breskum sjávarútvegi. Sumir fari vel út úr því en aðrir illa, og skoðanir séu þess vegna skiptar.
„Ég get bara horft á það frá okkar sjónarhóli,“ segir hann. „Þrátt fyrir útgöngubannið hér þá var salan góð í byrjun vikunnar.“
Hann minnir á að Bretar flytji inn 80 prósent af þeim fiski sem neytendur kaupa þar í landi, og 75% af því sem breskir sjómenn veiða fer í útflutning.
„Þetta þýðir að Bretland er háð innfluttum fiski! Það mun ekki breytast því breska þjóðin er vanaföst og öll erum við hrifin af fiski og frönskum. Enginn vafi leikur á því að besta hráefnið í það er íslenskur fiskur!“
Heimild Fiskfrettir.is