Færslur: 2021 Júní

05.06.2021 00:12

Harðbakur landaði fullfermi og rauf 3000 tonna múrinn

                                                            2963 Harðbakur EA3  mynd þorgeir Baldursson 

„Fast þeir sóttu sjóinn,“ segir í þekktu dægurlagi og víst er að áhöfn Harðbaks EA, ísfisksskips Útgerðarfélags Akureyringa, gerir það.

Harðbakur landaði fullfermi á Dalvík snemma í morgun, um 90 tonnum af slægðum fiski, aðallega þorski. Skipstjórinn segir að það hafi verið dásamleg tilfinning að sigla inn Eyjafjörðinn í veðurblíðunni með góðan afla.

3000 tonn á 100 sólarhringum

Þegar afli Harðbaks er tekinn saman frá 15. febrúar til dagsins í dag sést vel að fast er róið. Á rúmlega eitt hundrað sólarhringum hefur 37 sinnum verið landað og aflinn er samtals 3.018 tonn. Að jafnaði hefur því verið landað um 80 tonnum eftir hverja veiðiferð.

Guðmundur Ingvar Guðmundsson skipstjóri segir að þessi túr hafi tekið tvo og hálfan sólarhring, rétt um sólarhring hafi tekið að fylla skipið.

Hráefninu ekið norður

„Við vorum fyrir norðan Hornstrandir og þetta er mjög góður fiskur, rúmlega fjögur kíló og við vorum að taka sjö til átta tonn í holi. 

Við erum ellefu um borð, allt saman stálkarlar. Harðbakur hefur aðallega landað Í Þorlákshöfn, Hafnarfirði, Grundarfirði og í Bolungarvík,

frá þessum stöðum er hráefninu svo ekið norður til Dalvíkur og Akureyrar. Í raun og veru er oftast landað næst þeim stað sem við erum við veiðar, sem skýrir fjölda veiðiferðanna að nokkru. “

Indæl tilfinning að sigla inn Eyjafjörðinn með fullfermi

Harðbakur kom nýr til Akureyrar seint á síðasta ári en skipið var smíðað í Noregi.

Guðmundur segir skipið gott í alla staði, bæði hvað varðar vinnslubúnað og aðbúnað áhafnarinnar.

„Það eru tvær áhafnir á skipinu, Covid hefur haft töluverð áhrif á frítúra en núna fer þetta allt saman að komast í rétt horf hjá okkur.

Jú, jú, það var sannarlega indæl tilfinning að sigla inn Eyjafjörðinn í nótt með fullfermi af góðum fiski og ekki skemmir fyrir að hafa rofið 3.000 tonna múrinn í leiðinni,“ segir Guðmundur skipstjóri. 

03.06.2021 23:57

Nýi Börkur kominn Heim

                                   2983 Börkur Nk 122 Mynd þorgeir Baldursson 3 júni 2021

Það var logn og blíða þegar nýi Börkur sigldi inn Norðfjörð um hádegisbilið í dag í fylgd Beitis.

Það ríkti hátíðarstemmning í Neskaupstað og það voru margir til að dást að hinu glæsilega skipi.

Skipin tvö sigldu fram og aftur um fjörðinn fánum prýdd og þeyttu skipsflauturnar ákaft.

Það eru ávallt tímamót þegar tekið er á móti nýju skipi, en síðasta nýsmiði sem Síldarvinnslan festi kaup á var rækjufrystitogarinn Blængur sem kom í fyrsta sinn til hafnar í Neskaupstað árið 1993.

Nýi Börkur verður til sýnis um sjómannadagshelgina eins og auglýst hefur verið og á sjómannadaginn kl. 11 fer fram athöfn í Norðfjarðarhöfn þar sem skipinu verður gefið nafn og það blessað.

Nánar verður greint frá hinu nýja skipi hér á heimasíðunni eftir helgina.

                                                           Nýi Börkur NK og Beitir NK mætast á Norðfirði. Ljósm. Þorgeir Baldursson 3 júni 2021

02.06.2021 21:57

Kaldbakur landaði 190 tonnum af góðfiski sem að mestu leyti á leið á markað í Frakklandi.

                                             2891  Kaldbakur Ea 1 myndþorgeir Baldursson 2020

Kaldbakur EA 1, ísfisktogari Útgerðarfélags Akureyringa, kom til heimahafnar í gær með 190 tonn af góðum fiski eftir aðeins fimm daga veiðiferð.

Kaldbakur hélt til veiða strax eftir að búið var að landa aflanum, sem tók um fimm klukkustundir.

Fiskurinn verður kominn til erlendra viðskiptavina Samherja síðar í vikunni, að því er segir á heimasíðu Samherja.

Ferskleikinn í fyrirrúmi

„Við vorum á veiðum í þrjá og hálfan sólarhring, siglingin vestur tekur sautján klukkustundir og sama tíma tekur að sigla heim.

Uppistaðan er þorskur og svo ufsi, aflinn í þessum túr var að jafnaði um níu tonn í hali (holi).

Afkastageta veiðarfæranna er mun meiri en mestu skiptir að fara sem best með aflann og koma með hann til lands eins ferskan og kostur er.

Öll vinnslan um borð miðast við að hámarka gæðin,“ segir Sigtryggur Gíslason skipstjóri, og bæti við.

„Já, þetta eru um 190 tonn sem þýðir fullfermi.

Til þess að ná þessari tölu þarf meira að segja að geyma nokkur tonn í kælisniglunum og halda fiskinum þar undir núll gráðum, þannig að ferskleikinn haldi sér.

Við vorum aðallega á Halamiðum, þar hefur veiðin verið mjög góð og líklega förum við aftur vestur þegar búið er að landa, sem tekur um fimm tíma.

Við erum þrettán um borð og auðvitað er þetta töluverð vinna þegar veiðist svona vel. En þetta eru hörku strákar og áhöfnin er samhent og vel sjóuð.

Við erum með tvær áhafnir, núverandi áhöfn fer í frí eftir sjómannadaginn,“ segir Sigtryggur.

Mikill hraði

Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir í fréttinni að afli Kaldbaks fari aðallega til vinnslu á Akureyri, hluti aflans fari þó til vinnslu á Dalvík.

„Við förum langleiðina með að vinna úr afla Kaldbaks í dag. Þetta er gæða hráefni og stærstur hlutinn fer til viðskiptavina okkar í Frakklandi, bæði með flugi og skipi.

Hraðinn í vinnslunni er mikill, enda vilja kaupendur fá hráefnið sem ferskast. Fiskurinn sem fer með flugi til Frakklands verður sem sagt kominn til kaupenda síðar í vikunni.

Til þess að allt þetta gangi upp þarf samhæfingu margra og gott skipulag.“

„Allur flotinn verður inni á sjómannadag og við þurfum að stilla vinnsluna samkvæmt því, þar sem ekkert verður um landanir í vikunni eftir sjómannadaginn.

Þess vegna landa líklega þrír togarar hjá okkur á föstudaginn, svo dæmi sé tekið. Þetta hefst allt saman og verður auðveldara þegar veiðin er svona góð,

eins og verið hefur að undanförnu,“ segir Gestur.

Heimild Fiskifrettir.is

 

 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 526
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1455
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 991947
Samtals gestir: 48545
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:27:28
www.mbl.is