Færslur: 2008 Ágúst26.08.2008 23:42Andanefjur á AkureyrarpolliAndanefjur á Pollinum við Akureyri © mynd Þorgeir Baldursson 2008 Skrifað af Emil Páli 26.08.2008 22:29SmyrillSmyrill gengur á milli Þórshafnar og Suðureyja í Færeyjum og Jón Páll Ásgeirsson sem tók þessa mynd 30. apríl á síðasta ári, telur að hann væri ansi góður á leiðinni Vestmanneyjar-Þorlákshöfn en hann gengur að hann heldur 22 sjómílur og er með stærðar bíladekk. Telur hann að Smyrill væri því miklu betri kostur en að byggja höfn í sand. Smyrill © mynd Jón Páll Ásgeirsson 2007 Skrifað af Emil Páli 26.08.2008 17:43Viðtal við skipstjórann á Kaldbak EA
Þorskur þar sem trollinu er dýft Kaldbakur EA hefur stóran hluta fiskveiðiársins sem nú er að ljúka stundað ýsuveiðar á grunnslóð. Þrátt fyrir að mega veiða talsvert af þorski hefur hann nær eingöngu verið veiddur sem meðafli. Skipstjórinn á Kaldbak er efins um að flotinn nái að veiða allan ýsu- og ufsakvótann á næsta ári vegna slæmrar kvótastöðu margra í þorski. ,,Við vorum að enda við hífa í Þverhálsbotni sem er norður af Horni en það var ekki nema eitt tonn af ýsu í halinu sem er fremur lítið en þetta er ágætisýsa," sagði Jóhann Gunnarsson, skipstjóri á Kaldbak EA, þegar Fiskifréttir náðu tali af honum fyrir skömmu. ,,Kaldbakur er búinn að vera úti fyrir Austurlandi síðan í apríl og þetta er fyrsti dagurinn okkar hér fyrir vestan og get ég því lítið tjáð mig um útlitið á miðunum hér. Ýsuveiðin fyrir austan hefur verið ágæt og ætli við séum ekki búnir að veiða um 2.000 tonn af ýsu á kvótaárinu og mest hefur farið í gáma til útflutnings. Við höfum aftur á móti orðið lítið varir við ufsa á þeim slóðum sem við stundum. Ufsinn er flökkufiskur og við veiðum hann þegar hann nánast kemur upp í hendurnar á okkur, en svo sjáum við hann ekki í langan tíma þess á milli," segir Jóhann. Þorskur allsstaðar ,,Þegar við vorum fyrir austan lönduðum við yfirleitt á Eskifirði, annars erum við ekki háðir neinni sérstakri löndunarhöfn. Öllum þorski er keyrt til ÚA á Akureyri og ufsinn fer til vinnslu hjá Laugafiski í Reykjadal. Þrátt fyrir að mega veiða þó nokkuð af þorski veiðum við hann nánast allan sem meðafla því það er sama hvar maður dýfir trollinu, allstaðar er þorskur. Á þessu kvótaári erum við búnir að taka örfáa daga á þorskslóð og þar sem við höfum prófað hefur verið góð veiði. Af því sem ég hef séð hlýtur að vera mjög erfitt fyrir þá sem hafa litlar þorskveiðiheimildir að sækja ýsu og annan botnfiskafla. Þorskniðurskurðurinn á þessu og á næsta ári er allt of mikill. Ef það á að vera hægt að veiða annan botnfiskkvóta og ganga vel um auðlindina þarf þorskkvótinn að vera 180 þúsund tonn. Ellegar verður einnig að minnka úthlutun í öðrum tegundum verulega. Þá tel ég áríðandi að íslensk stjórnvöld reyni að ná samningum um "íslenska þorskinn" við Austur-Grænland. Það er greinilegt af fréttum að þorskurinn er farinn að sækja í auknum mæli inn í grænlensku lögsöguna samfara hlýnandi sjó og breyttum skilyrðum. Við verðum að gera samning við Grænlendinga um þorskinn eins og til dæmis um loðnuna en ekki hafa það eins og forðum með sameiginlegan rækjustofninn á Dohrnbanka, gera ekkert. Ég vil sjá íslensk skip fara til veiða á sameiginlegum þorskstofni við Austur-Grænland," segir Jóhann. Aðgerðavélar um borð Kaldbakur er eitt af fáum skipum í íslenska flotanum sem er með aðgerðarvélar um borð. ,,Vélarnar hafa reynst mjög vel en við notum þær eingöngu fyrir ýsu og ufsa. Fisknum er krækt á band sem flytur hann að hálfgerðum sagarblöðum sem rista fiskinn upp og svo eru burstar sem hreinsa innyflin úr honum. Það er alveg hægt að nota vélarnar á þorsk en þar sem hann er miklu verðmætari fiskur erum við viðkvæmari fyrir nýtingunni á honum þar sem skurðurinn í vélinni er ekki jafn fínn og þegar gert er að í höndum. Vélarnar auka afköstin margfalt og þegar vel gefur af ýsu og ufsa nýtast þær mjög vel," segir Jóhann. Aflinn fyrir austan að minnka ,,Ástæðan fyrir því að við flutum okkur vestur er sú að ýsuaflinn fyrir austan var farinn að minnka og svo á að opna hólf norður af Horni sem við ætlum að kíkja í. Ég veit ekki hvað við verðum hér lengi, það ræðst af veiðinni. Í grófum dráttum hefur fiskveiðiárið sem nú er að líða verið ágætt. Við hófum veiðar á árinu úti fyrir Norðurlandi, frá Grímsey og austur undir Langanes, og vorum þar fram undir áramót. Í byrjun janúar fórum við austur fyrir land og höfum verið á veiðum á Digranesflaki og suður undir Lónsdýpi. Við tókum að vísu tvo eða þrjá túra á norðausturhorninu á tímabilinu frá janúar til mars en frá því í apríl höfum við eingöngu verið fyrir austan. Við stoppuðum tvær vikur í júlí/ágúst. Eftir verslunarmannahelgina fórum við einn túr austur en lönduðum síðasta túr á Akureyri," segir Jóhann. Efins um að ýsan náist Í áhöfn Kaldbaks eru tuttugu hressir karlar af Norður- og Austurlandi en þeir eru þrettán um borð í einu að sögn Jóhanns. ,,Ég geri ráð fyrir að næsta fiskveiðiár verði svipað hjá okkur og það sem er að líða hvað veiðar varðar og ég er hóflega bjartsýnn á að veiðar á ýsu gangi jafnvel. Mér skilst að minna hafi orðið vart við hana hér fyrir vestan en undanfarin ár. Kaldbakur hefur notið þeirra forréttinda að mega veiða ýsu á svæðum þar sem talsvert af þorski veiðist sem meðafli, það geta ekki allir vegna slæmrar kvótastöðu í þorski," segir Jóhann Gunnarsson. Skrifað af Þorgeir 26.08.2008 00:10Marta Ágústsdóttir GK 14967. Marta Ágústsdóttir GK 14 © mynd Emil Páll 2008 Skrifað af Emil Páli 26.08.2008 00:04MagnSmíðað 1983 hjá Siegholdwerft Bremerhaven G.m.b.H. & Co. í Bremerhaven í Þýskalandi sm.no. 194. Hét fyrst Hornisse og 1996 Magn og 2008 Amalia Magn © mynd Þorgeir Baldursson 2005 Skrifað af Emil Páli og Óskari Franz 25.08.2008 00:11Ludvik AndersenSkipið er smíðað hjá Skála Skipasmiðja í Færeyjum 1984 sm.no. 41
og hét fyrst Star Saga, en 1992 fékk það nafnið Saga og 1997 núverandi nafn Ludvik Andersen. Ludvig Andersen © mynd Þorgeir Baldursson 2006 Skrifað af Emil Páli og Óskari Franz 24.08.2008 00:08Sigurbjörg KE 14Bátur þessi er smíðaður í Strandby í Danmörku 1946 og bar fyrst nafnið Sigrún AK 71 og með því nafni lenti báturinn í miklum hrakningum á norðanverðum Faxaflóa 4.- 5. janúar 1952. Hann var seldur til Keflavíkur 1962 þar sem hann fékk fyrst nafnið Sigurbjörg KE 98 og síðan Sigurbjörg KE 14 og hafði það nafn í tæp 20 ár, en þó ekki alltaf í eigu sama aðila. Þá fékk báturinn nafnið Sigrún KE 14 og var í lokin í eigu aðila ýmist á Ísafirði, Hvammstanga eða Kópaskeri. Báturinn var síðan tekin í Úreldingasjóð 4. nóv. 1986.
Skrifað af Emil Páli 24.08.2008 00:01Selma EA 212Bátur þessi hljóp af stokkum 26 maí 1999 í Grófinni í Keflavík, hann var samstarfverkefni þriggja fyrirtækja í Sandgerði og Njarðvík, en Plastverk hf. í Sandgerði og Sólplast ehf., Innri-Njarðvík voru aðalverktakarnir. Hann hefur borið tvö nöfn hérlendis þ.e. Selma ÍS 200 og Selma EA 212, en hefur að ég held nú verið seldur til Noregs.
Skrifað af Emil Páli 23.08.2008 21:40GoðafossSkipið er smíðað 1995 hjá Örskov Christensens Staalskibsværft A/S, Frederikshavn í Danmörku. sm.no.180. Hefur það borið þessi nöfn á undan Goðafossnafninu: Maersk Quito frá 2000, Trsl Concord frá 1997, Kirsten Sif frá 1995: Heimahöfn Goðafoss er St. John's, Antiqua and Barbuda. Goðafoss © myndir Þorgeir Baldursson 2005 Skrifað af Emil Páli 23.08.2008 08:26Þekkið þið þennan?© mynd Emil Páll 1992 Þessi hefur verið gerður út af íslenskri útgerð undir íslensku nafni, hann hefur líka verður gerður út hérlendis af íslenskum aðilum en undir erlendu nafni, þá hefur hann mikið verið gerður út erlendis undir íslensku nafni og í eigu íslenskst fyrirtækis. Til að gefa lesendum kost á að geta, munum við ekki birta rétt nafn fyrr en á morgun. Þess skal tekið fram að þegar myndin var tekin var verið að setja á hann erlent nafn sem hann var síðan gerður út hérlendis með og útgerðin var íslensk. Þekkið þið sögu hans, s.s. hvaða nöfn hann hefur borið og jafnvel hvaðan hann kom í upphafi, eða annað? Skrifað af Emil Páli 23.08.2008 08:22Gyða Jónsdóttir EA 202645 Gyða Jónsdóttir EA 20 © mynd Þorgeir Baldursson Skrifað af Emil Páli 23.08.2008 08:15Hollenska skútan orðin íslenskHollenska skútan farin úr höfninniHollenska skútan sem legið hefur við bryggju í Hornafjarðarhöfn frá því í september í fyrra lét úr höfn sl. miðvikudag undir stjórn nýrra eigenda. Skútan kom frá Hollandi en þar höfðu einhverjir óprúttnir náungar stolið henni og fengið menn,sem ekki vissu um að neitt athugavert væri í gangi, til að sigla henni hingað til Hornafjarðar þar sem ,,eigendurnir ´´ ætluðu að vitja hennar. Upp komst um þjófnaðinn og var skútan kyrrsett hér og hefur hún síðan verið í góðri umsjá hafnarvarða Hornafjarðarhafnar. Nú hafa nokkrir íslenskir siglingakappar keypt skútuna af hollenska tryggingafélaginu sem orðinn var eigandi hennar og eftir að hafa yfirfarið skútuna var látið úr höfn og haldið til Þorlákshafnar. Skrifað af Emil Páli 22.08.2008 16:21Sameiginlegur flökkustofn
Brynjólfur Oddsson er margreyndur skipstjóri sem stundað hefur veiðar víða í Norðurhöfum. Í viðtali við Fiskifréttir lýsir hann þeirri skoðun sinni að þorskurinn flakki meira á milli íslensku og grænlensku lögsögunnar en talið hefur verið © mynd Þorgeir Baldursson 2008
KJARTAN STEFÁNSSON kjartan@fiskifrettir.is
Frystitogarinn Kiel, sem Deutsche Fishfang Union GmbH dótturfélag Samherja gerir út, kom úr Barentshafinu í síðustu viku eins og fram kom í síðasta tölublaði Fiskifrétta með metafla, 2.100-2.200 tonn upp úr sjó eftir 59 daga veiðiferð. Fiskifréttir hittu skipstjóra Kiel, Brynjólf Oddsson, að máli og spurðu hann fyrst um ástand þorskstofnsins í Barentshafi.
,,Í Barentshafinu og við Noreg og Rússland eru að vaxa upp þrír mjög stórir þorskárgangar. Sá elsti er að koma inn í veiðina sem 45-50 sentímetra fiskur og mun skila sér upp að strönd Finnmerkur í vetur með loðnunni sem geldfiskur og verður kominn á hrygningarstöðvarnar suður við Lofoten eftir 3 til 4 ár. Hinir árgangarnir koma inn í veiðina á næstu tveimur árum þannig að útlitið er gott varðandi þorskveiðina í Barentshafi, bæði í Svalbarðalögsögunni og við Noreg og Rússland. Ég spái kvótaaukningu í þorski á þessum svæðum á næstu árum en Rússar og Norðmenn hafa gert með sér samkomulag um að þorskkvótinn verði ekki aukinn eða minnkaður nema um 10% milli ára. Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart við veiðar á Svalbarðasvæðinu síðustu tvö árin er að ufsi er farinn að sjást í veiðinni. Við höfum fengið þokkaleg ufsahöl í kringum Bjarnarey og hann veiðist í stykkjatali allt norður á 78°N. Annars er Barentshafið fullt af lífi, af loðnu, síld, þorski, rækju, ískóði og hval. Ég skyldi fyrst merkingu orðsins selavaða þegar ég sá hundruð og þúsundir sela í ætisleit ekki fyrir löngu síðan," sagði Brynjólfur.
Talið barst að veiðum togara fyrr og nú. Brynjólfur sagði að erfitt væri að bera þetta saman því tækninni fleygði fram. Afköstin hefðu margfaldast. ,,Tækni þeirra afreksmanna, togaraskipstjóranna Tryggva Ófeigssonar og Eldeyjar-Hjalta, mundi til dæmis duga skammt í dag. Ég fengi ekki upp á hálfan bæklaðan kött með þeirra veiðarfærum og tækni ef ég má nota samlíkingu ónefnds togaraskipstjóra," sagði Brynjólfur.
Þorskveiðar við Grænland
Brynjólfur sagði að Kiel væri nú að fara til veiða við Grænland í sína aðra og seinustu veiðiferð á þessu ári en skipið var mikið endurnýjað í Þýskalandi í ár. ,,Í fyrra fengu ESB-skipin að veiða þorsk í grænlensku lögsögunni í fyrsta sinn eftir nokkurt hlé en Grænlendingar hófu þorskveiðar árinu áður. Veiðarnar voru aðallega við austurströndina norðan 63°N. Fiskurinn var mjög stór og fullur af hrognum hjá þeim skipum sem voru að veiðum á hrygningartímanum. Hjá okkur, sem komum seinna eða í ágúst en vorum samt fyrstir ESB-skipanna, var fiskurinn mjög stór. Þau skip sem á eftir okkur komu í fyrra urðu að veiða sunnan 63°N. Reglugerðum var breitt í ágúst. Pólitísk stefna var þá tekin um að hlífa stórfiski við veiðum og sækja frekar í smærri fisk. Veruleg hrygning hefur verið síðustu 3 árin við Austur-Grænland norðan 63°N á hinum hefðbundnu íslensku síðutogaramiðum hér áður fyrr.
Í fyrra fóru Kiel og fleiri ESB-skip einnig að veiða grálúðu norðan Dorhnbanka. Grænlendingar voru búnir að ná árangri þar við grálúðuveiðar í nokkur ár þar á undan. Grálúðuveiðin var frá íslensku miðlínunni og norður undir Scoresbysund. Þó nokkuð var um "íslenska" loðnu á svæðinu. Ég vissi, eins og reyndar er fyrir löngu viðurkennt, að grálúðan sem við höfum veitt við Austur-Grænland til fjölda ára er samstofna við grálúðu á Íslandsmiðum enda heitir hún á ensku "Greenland Halibut". Loðnan, sem nú hefur valið sér sumarhaga í grænlensku lögsögunni, er einnig sameiginlegur fiskstofn okkar og Grænlands."
Velur sér stað eftir skilyrðum en ekki lögsögu
-- Hvað finnst þér þá um þorskinn sem Grænlendingar og ESB-skip hafa veitt við Grænland. Hver eru tengsl hans við íslenska þorskinn að þínum dómi?
,,Ég tel að þorskurinn við Grænland sé mun ,,meira samstofna" þorskinum hér, ef þannig má að orði komast, heldur en hefðbundnar kenningar fiskifræðinnar um seiðarek og endurkomu hrygningarþorsks í íslenska lögsögu fela í sér, enda nær efniviður í fiskifræðilegar kenningarsmíðar stutt aftur í tímann. Áratugir eru stuttur tími í náttúrulegum sveiflum í hafinu og ekkert er nýtt undir sólinni. Íslensk-grænlenski þorskurinn hefur að mínu áliti alltaf valið sér stað til hrygningar og hagagöngu eftir lífsskilyrðum og flakkað mun meira á milli lögsaga en hefðbundnar kenningar fiskifræðinnar segja til um, bæði geld- og hrygningarfiskur. Ef litið er til sögunnar þá hafa oft komið upp þorskleysisár á Íslandsmiðum. Ég tel miklar líkur vera á því að hinar stóru þorskgöngur á Vestfjarðamiðum frá 1975-1990 og einnig fyrr á öldum hafi að hluta til komið frá Grænlandi. Hér er hugsanlega um að ræða fyrrum þorskseiði frá Íslandi að koma til baka frá Grænlandi miklu fyrr en fiskifræðileg rétthugsun segir til um og fiskurinn af allt öðrum árgöngum. Ég held að þegar stórar þorskgöngur geldfisks komu upp í Víkurál frá Grænlandi og þaðan á öll norðvesturmið að þá hafi verið réttu skilyrðin fyrir loðnu á landgrunninu norður af Íslandi og blöndun á heitum og köldum sjó rétt fyrir þorskinn. Þorskurinn er eins og flest mannfólkið; hann hugsar bara um mat og kynlíf og gefur lítið fyrir þjóðerni."
Réttu skilyrðin við Grænland
Brynjólfur ítrekaði að um göngur hrygningarfisks gilti kynlífið; þorskurinn væri gagntekinn kynhvöt og það eina sem hann hugsaði um á þeim tíma væri að finna réttan stað til að koma næstu kynslóð á legg, hvort sem það væri Selvogsbankinn eða Half Moon við Grænland. ,,Ég vissi að grálúðan væri ekki á íslensku vegabréfi í það minnsta gleymdi hún að sækja um vegabréfsáritun og loðnan væri líka í vaxandi mæli ,,þjóðernissvikari". En að þorskurinn á Íslandsmiðum væri að hluta til blandaður stofn milli Íslands og Grænlands voru mér ný sannindi. Það var á vissan hátt vonbrigði og mikil umskipti á þeirri fiskveiðiréttarhugsun sem ég var alinn upp við.
Þorskurinn við Ísland og Grænland er margstofna og staðbundinn að hluta en örugglega er stærsti þorskstofninn, sá sem veitt er úr á Grænlandssundi við Ísland og Grænland, sameiginlegur stofn okkar og Grænlendinga sem velur sér hrygningarstöðvar og hagagöngu eftir lífsskilyrðum en ekki lögsögu. Nú eru réttu skilyrðin við Grænland fyrir þorskinn og ég tel að við munum búa við lágan jafnstöðuafla í þorski á Íslandsmiðum næstu árin. Þeir sem hafa skuldsett sig í kvótakaupum á þorski í von um betri tíma þurfa kannski að bíða lengi eftir bata. Ég tel samt að engin ástæða sé til að örvænta því staðbundnu þorskstofnarnir okkar eru í góðu lagi," sagði Brynjólfur Oddsson. Skrifað af Þorgeir 22.08.2008 00:03Erlingur GK 6Togarinn Erlingur GK 6 hefur smíðanr. 59 hjá Sterkoder Mekverksted í Kristiansund í Noregi og lauk smíði hans 1975. Kom hann í fyrstu ferð sinni hingað til lands að bryggju í Keflavík á Þorláksmessu 1975 og til löndunar í Sandgerði koma hann í fyrsta sinn 23. mars 1976 og var þá fyrsti togarinn sem komið hafði að bryggju í Sandgerði. Auk Erlingsnafnsins bar hann hérlendis nöfnin Þórhalldur Daníelsson SF 71 og Baldur EA 71. Hann var síðan seldur úr landi til Nýja Sjálands 19. nóv. 1993. Þar hélt hann Baldursnafninu en ekki er vitað um útgerðaraðila, né heimahöfn. 1449. Erlingur GK 6 nýkominn nýr til landsins © mynd Emil Páll í des. 1975. Skrifað af Emil Páli |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 2696 Gestir í dag: 15 Flettingar í gær: 4063 Gestir í gær: 33 Samtals flettingar: 1121822 Samtals gestir: 52256 Tölur uppfærðar: 18.1.2025 06:10:23 |
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is