10.08.2020 07:55Norskar öngulvindur létta lífið
Gisli Unnsteinsson um borð i Steinunni Ár 34 mynd þorgeir Baldursson 2020 Heimild Fiskifrettir Myndir Þorgeir Baldursson Gísli Unnsteinsson hefur undanfarin fimm ár verið skipstjóri í Noregi og segir að þar noti flestir sem eru á handfærum svokallaðar öngulvindur, sem draga inn slóðana.„Ég kalla þetta bara öngulvindur, sem er bein þýðing úr norsku,“ segir Gísli Unnsteinsson um nýstárlegan búnað sem hann hefur útvegað sér frá Noregi. „Þetta er til þess að draga inn slóðana þannig að menn þurfi ekki að vera að toga í þetta sjálfir með höndunum.“ Gísli gerir út á strandveiðar bátinn Steinunni ÁR 34 frá Þorlákshöfn og varð aflahæstur strandveiðimanna bæði í júní og júlí. Hann segir að vel hafi gengið á strandveiðum í sumar. Þetta hafi verið mjög gott hingað til, en hann efast þó um að hægt verði að veiða mikil lengur en fram í miðjan ágúst. „Ég hugsa að það vanti aðeins upp á. Það hefði þurft að vera meira í pottinum, mér sýnist þetta vera ábyggilega búið um miðjan ágúst. Er voðalega hræddur um það.“ Hann segist ekki vita til þess að menn hér á landi hafi verið að nota vindubúnaðinn norska, fyrir utan einn annan sem hann veit um. „En í Noregi nota þetta flestir sem eru á handfærum.“ Léttir vinnunaSjálfur kynntist hann þessum vindum í Noregi en þar var hann skipstjóri á snjókrabbaskipi síðustu fimm árin. Hann segist þó ekki viss um þessi búnaður hafi gert útslagið um að hann varð aflahæstur strandróðramanna. „Þetta eykur lítillega afköstin, en kannski ekki mikið, og erfitt svo sem að mæla það. En það sem þetta gerir fyrst og fremst er að þetta léttir vinnuna svo mikið. Ég sjálfur hef til dæmis átt í axlavandræðum og veseni í handleggjum og svoleiðis, en það hvarf allt þegar ég byrjaði að nota þetta.“ Hann segist viss um að margir strandveiðimenn tækju þessu fagnandi. „Þetta er örugglega gott fyrir marga, því það er nú hár meðalaldurinn í þessum strandveiðum. Þetta getur verið slítandi vinna þegar er mikil veiði. Það léttir mjög mikið að þurfa ekki að vera að toga fiskinn allan upp, því vindan dregur slóðana upp. Maður þarf bara að gogga fiskinn, hjálpa honum undir.“ Tvær vindur á bátnumGísli er með tvær vindur á bátnum sínum, og það dugar fyrir fjórar handfærarúllur. Ég er með tvær vindur, tvær duga fyrir fjórar handfærarúllur, „Hver svona vinda getur dregið slóða fyrir tvær rúllur, þannig að tvær er það sem strandveiðibátur þarf.“ Gísli hefur stundað strandveiðar allt frá upphafi. „Það er samt fyrst núna sem ég hef verið í þessu á fullu. Þetta hefur yfirleitt verið hobbí hjá mér fram að þessu en svo fékk ég mér betri bát síðastliðið haust og er kominn alveg í þetta núna á fullt.“ Báturinn er skráður á Þorlákshöfn og þaðan gerir Gísli út en nú síðustu vikurnar hefur hann róið frá Hornafirði. „Ég byrja í Þorlákshöfn, færi mig svo yfir í Vestmannaeyjar og síðan til Hornafjarðar þegar líður á sumarið. Það dregur svo úr veiðinni í Þorlákshöfn þegar kemur fram í júlí en þá aftur á móti er besti tíminn hérna.“ Skrifað af Þorgeir 09.08.2020 23:10Grundarfjörður séð með augum Drónans
Skrifað af Þorgeir 09.08.2020 22:38Arnarstapi á Snæfellsnesi
Skrifað af Þorgeir 09.08.2020 20:29Baldur i Stykkishólmi
Skrifað af Þorgeir 09.08.2020 08:46Vestmanneyjarskip á toginu
Skrifað af Þorgeir 09.08.2020 01:28Arnar HU 1 mokfiskar i rússnesku
Mokfiskirí við hlið rússneska flotansGudjon Gudmundsson 30. júlí 2020 kl. 16:00
2265 Arnar HU. Mynd/Þorgeir Baldursson.2019
Arnar HU með næsthæstu aflaverðmæti í sögu skipsins úr BarentshafiArnar HU gerði sinn næstbesta túr í sögu skipsins í Barentshafinu í 39 daga túr sem lauk í síðustu viku. Aflinn var 1.250 tonn upp úr sjó og aflaverðmætið var 450 milljónir króna. Íslensku skipin fimm sem fóru í Barentshafið á þessu ári hafa þá öll lokið veiðum þar. Hásetahluturinn í Barentshafstúrnum er um fjórar milljónir króna og það liggur mikil vinna á bak við kaupið. Met Arnars HU í aflaverðmætum er 456 milljónir kr. sem náðist við Noreg árið 2015. Uppistaðan í því sem landað var á Sauðárkróki 20. júlí síðastliðinn voru þorskflök. Guðmundur Henry Stefánsson var skipstjóri í Barentshafinu og segir túrinn hafa verið sérstakan fyrir margra hluta sakir, ekki síst vegna umfangsmikilla heræfinga rússneska flotans rétt við skipsíðu. Lagt var í hann 10. júní síðastliðinn og fjögurra sólarhringa stím er að eftirlitspunkti í Kirkenes í Norður-Noregi þar sem eftirlitsmaður var tekinn um borð. Mesta veiði sem við höfum lent í„Þetta gekk alveg ljómandi vel. Við höfum farið annað slagið í Barentshafið en þetta er með því betra. Við vorum þarna á miðlínunni milli Noregs og Rússlands og fórum líka aðeins austur eftir. Þetta er mesta veiðin á þessum slóðum sem við höfum lent í,“ segir Guðmundur Henry. Hann segir að veiðarnar hafi gengið glimrandi vel allt fram að því að þeir lentu inni í miðri heræfingu rússneska flotans sem stóð yfir frá 7. til 11. júlí. Þeir sáu aðeins hluta af öllum flotanum en þarna var meðal annars orrustubeitiskipið Pétur Mikli og flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov. „Við vorum að toga þarna innan um herskipin og það var dálítið sérstök upplifun. Þeir kölluðu í okkur og eftirlitsmaðurinn talaði við þá á rússnesku. Ég hef aldrei séð svona mikið af herskipum. Við sáum að minnsta fjögur eða fimm en þau voru fleiri. Við vorum næst þeim í 1,7 til 1,9 sjómílu fjarlægð í mokfiskeríi. Við vorum beðnir um að færa okkur eina nóttina og það var svo sem ekkert mál.“ Hergögn frá NATO í trollinuÞað var ekki bara þorskur sem kom upp með trollinu heldur líka skrápflúra og blágóma sem var heilfryst. Allt er hirt sem kemur upp úr hafinu, jafnt fiskur sem annað. Mikið kom upp af hernaðarbúnaði tengdum vörnum gegn kafbátum, þar á meðal búnaði sem er skotið út og er ætlað að trufla tundurskeyti. Búnaðurinn var það nýlegur, að sögn Guðmundar Henry, að hægt var að lesa merkingar sem sýndu að hann er frá framleiðanda sem framleiðir hernaðargögn fyrir Atlantshafsbandalagið. Vigri RE fékk sömuleiðis búnað af einhverju tagi upp úr trollinu sem líklega var sendir sem rússneski herinn sótti um borð. Alls fékk Arnar HU um 1.250 tonn upp úr sjó, þar af 1.140 tonn af þorski. Arnar kom seinna á miðin en hin íslensku skipin og sótti fyrir flotann veiðileyfi fyrir leigukvótann til Noregs. „Það er eftirsóknarverðara að fara á þessum árstíma í Barentshafið. Við höfum oftast farið á haustin og ekki alltaf riðið feitum hesti frá því.“ Hásetahluturinn eftir túrinn er um fjórar milljónir króna en Guðmundur Henry bendir á að baki þessu liggi mikil vinna, 12-14 tíma vinna alla daga vikunnar. Fjarvistirnar eru miklar og síma- og netsamband tregt. Fyrir hefur komið að hvorki er síma- né netsamband og heldur ekki sjónvarpsamband. Það séu mikil viðbrigði fyrir þá sem ganga að þessum hlutum sem vísum. „Oft eru farnir svona túrar sem ekkert fæst og ekkert er fjallað um í fjölmiðlum. Menn eru kannski 30-40 daga síma- og netsambandslausir og fiska ekkert.“ Skrifað af Þorgeir 08.08.2020 23:53Guðrún Þorkelsdóttir Su 211 á Makriltogi
Skrifað af Þorgeir 08.08.2020 19:31Baldvin Njálsson Gk Ýsukóngur ársins
Skrifað af Þorgeir 08.08.2020 13:15Öðlingur SF 165 kemur til hafnar
Skrifað af Þorgeir 06.08.2020 21:40Flatey á Reykhólum
Skrifað af Þorgeir 04.08.2020 23:00Ferjuskipaútgerð i vondum málum vegna Covid smits
frett af mbl.is Lögreglan í Tromsø í Noregi hefur hafið rannsókn á norsku farþegaskipaútgerðinni Hurtigruten og hver tildrög þess voru að á fjórða hundrað farþegum í tveimur vikulöngum siglingum MS Roald Amundsen var ekki tilkynnt fyrr en undir kvöld á föstudag, að farþegi í fyrri siglingunni greindist með kórónuveirusmit á miðvikudaginn var. Eru stjórnendur Hurtigruten grunaðir um stórfellt brot á norskum sóttvarnalögum með því að hafa fyrst sniðgengið tilmæli læknis í Vesterålen, sem meðhöndlar farþegann, og í kjölfarið skýr fyrirmæli Lýðheilsustofnunar Noregs (FHI) um að hafa tafarlaust samband við alla farþega siglinganna tveggja og greina þeim frá því að þeir yrðu að fara í sóttkví og gangast undir veirupróf. Frétt af mbl.isÞögðu um smit við 209 farþegaNorska dagblaðið VG greindi frá því í gær, að stjórnendur Hurtigruten hefðu lagst eindregið gegn því að sveitarfélag farþegans, sem fyrst greindist með veirusýkingu, sendi út fréttatilkynningu um málið, þar sem þeir vildu ekki að sýkingin um borð yrði gerð heyrum kunn. Hefur blaðið fengið að sjá tölvupóstsamskipti, er að þessu lúta, og birti í gær eftirfarandi klausu úr tölvupósti frá Martin Larsen Drageset, sóttvarnalækni í Hadsel í Vesterålen, til FHI: „Hurtigruten óskar eftir því að málið komist ekki í hámæli. Þetta kom fram í samtali við upplýsingafulltrúa fyrirtækisins. Þeir biðja um að fá að leysa málið sjálfir,“ ritar læknirinn í pósti sínum. Öllum siglingum aflýstAf farþegahópunum tveimur var sá síðari, 209 manns, um borð í Roald Amundsen þegar boðin bárust frá Line Vold, deildarstjóra hjá FHI, en enginn þeirra fékk þó að vita neitt fyrr en í land var komið í Tromsø tveimur dögum síðar. Hurtigruten hefur rifað seglin í kjölfar málsins og hætt öllum farþegasiglingum, en eins og greint var frá á mbl.is um helgina kom upp úr kafinu að 34 úr áhöfn skipsins reyndust smitaðir og hafa nú fimm farþegar að auki greinst með kórónuveirusmit svo alls hafa, að meðtöldum þeim fyrsta sem greindist, 39 manns af skipinu greinst með smit. Um helgina var talað um 36 úr áhöfn, en tveir, sem í fyrstu virtust smitaðir, reyndust það ekki og leiðrétti FHI töluna í gærkvöldi. Uppfært 4. ágúst kl. 11:00: Í morgun bárust hins vegar fréttir af tveimur nýjum smitum hjá farþegum svo heildartalan er 41 smit. Frétt af mbl.isHurtigruten stöðvar starfsemi farþegaskipaFarþegar siglinganna tveggja búa í 69 sveitarfélögum vítt og breitt um Noreg og kepptust heilsugæslustöðvar og starfsfólk Hurtigruten við að ná sambandi við fólkið með tölvupósti, SMS-skeytum og hringingum frá því síðdegis á föstudag og alla helgina. Þegar mest var sátu 60 í sóttkví í Tromsø, en í gær hafði þeim fækkað í 40. Vissi ekki neitt„Ég varð hreinlega fyrir áfalli,“ segir Lise Horgmo, 46 ára gamall geðhjúkrunarfræðingur frá Þrándheimi, í samtali við Morgunblaðið. Horgmo var í sumarfríi og með seinni siglingu Roald Amundsen frá Tromsø til Svalbarða og til baka. Vissi hún ekkert af málinu fyrr en hún hafði tekið leigubíl, flogið til Þrándheims, farið í búðina og svo heim. Geðhjúkrunarfræðingurinn Lise Horgmo segir sínar farir ekki sléttar eftir siglinguna örlagaríku með MS Roald Amundsen í síðustu viku. Hún situr nú í sóttkví síðustu daga sumarfrísins sem hún mun eiga sjö klukkustundir eftir af þegar sóttkví lýkur. Ljósmynd/Ú?r einkasafni Greinir hún frá því að hún hafi verið með þeim fyrstu frá borði þegar skipið kom til Tromsø, farið á hótel skammt frá höfninni og pantað þangað leigubíl. „Svo fór ég bara upp á flugvöll þar sem ég átti pantað flug heim til Þrándheims,“ segist Horgmo frá, en hún gekk þá með öllu grunlaus um smit sem stjórnendur Hurtigruten höfðu vitað um í tvo sólarhringa. Hún flaug heim grímuklædd eins og reglur um innanlandsflug í Noregi gera ráð fyrir, settist upp í bifreið sína, kom við í búðinni og fór svo á heimili sitt þar sem hún býr ein. „Ég fékk tölvupóst [frá Hurtigruten] klukkan 18:27, en ég les aldrei póstinn minn. Svo klukkan hálfníu fæ ég SMS-skilaboð um smitið,“ segir Horgmo og þá kom áfallið. „Þessi háttsemi er með ólíkindum, ég var búin að taka leigubíl, fara í flug og kaupa í matinn og ég vissi ekki neitt,“ segir hjúkrunarfræðingurinn. Hún hafi svo fengið símtal frá Hurtigruten þar sem hún hafi verið beðin afsökunar á þessari handvömm. Sjö tímar eftir af fríinu„Það breytti nú satt að segja ekki miklu,“ segir Horgmo sem gekkst undir veirupróf seint á föstudagskvöld og fékk sér til mikils léttis að vita, um hádegi á laugardag, að prófið hefði reynst neikvætt. Það í sjálfu sér var þó skammgóður vermir. Þar sem hún starfar í heilbrigðisstétt þarf hún að gangast undir annað próf í dag og hvað sem öllum niðurstöðum líður er hjúkrunarfræðingnum nauðugur einn kostur að sitja í sóttkví á heimili sínu það sem eftir lifir sumarfrísins. „Það verða sjö klukkutímar eftir af fríinu mínu þegar sóttkvínni lýkur,“ segir Horgmo og vottar fyrir hlátri þrátt fyrir umgjörð málsins. „Ég ætlaði að nota vikuna núna til að aka niður eftir til Sognsævar og Firðafylkis [nú Vestlandet-fylki] og skoða mig um þar, ég bjó þar einu sinni,“ segir Lise Horgmo í Þrándheimi sem fer beint úr sóttkví í vinnuna í næstu viku. Skrifað af Þorgeir 04.08.2020 22:44Northguider sökk við SvalbarðaAf vef Fiskifrettamyndir Norska Strandgæslan og Eirikur Sigurðsson skipst á Rewal Viking Gudjon Gudmundsson Northguider á strandstað.
Skorinn niður í 50 hlutaVinna er hafin við það undir stjórn norsku strandgæslunnar að fjarlægja rækjutogarann Northguider af strandstað í Hinlopsundinu við Svalbarða. Skipið strandaði þar í desember 2018. Skipsflak af þessari stærð hefur ekki áður verið fjarlægt af strandstað á svo norðlægum slóðum. Gerðar voru tilraunir til þess að fjarlægja skipsflakið í fyrra en menn urðu frá að hverfa vegna erfiðra veðurskilyrða og mikils íss. Northguider var smíðaður árið 1988. Hann er 55 m langur og 13 m breiður og með heimahöfn í Bergen.
Stuttu eftir strandið í árslok 2018 var olía, veiðarfæri og raftæki fjarlægð úr skipinu. Það því ekki talið að mikil umhverfisógn stafi af því. En strandstaðurinn er á vernduðu svæði og fyrr eða síðar munu náttúruöflin sjá til þess að brjóta það niður. Norska strandgæslan hefur gert þá kröfu til útgerðar skipsins að það kosti fjárútlát við það að að fjarlægja skipið og styðst þar við sérstök lög um umhverfisvernd við Svalbarða. Í tengslum við hreinsunarstarfið hefur norska strandgæslan bannað siglingar á vissum svæðum Hinlopssundsins frá 22. júlí til 30. september.
Togarinn verður skorinn niður í alls 50 hluta á staðnum sem hver vegur um fimm tonn. Brotajárninu verður lyft á pramma sem flytur það um borð í flutningaskip. Norska strandgæslan segir að með þessari aðferð sé framvinda verksins síður háð veðri og vindum. Einnig hafi það minni tilkostnað í för með ef hætta þarf aðgerðum tímabundið þegar ís- og veðurskilyrði breytast.
Gard, vátryggingafélag útgerðar Northguide, borgar brúsann en það er björgunarfyrirtækið SMIT Salvage sem vinnur verkið. Norska strandgæslan leggur til rannsóknaskipið Lance til verkefnsins sem hófst í síðustu viku. Áætluð verklok eru um miðjan september.
Skrifað af Þorgeir 04.08.2020 22:22Vörður og Áskell ÞH i Grindavik i dag
Skrifað af Þorgeir 04.08.2020 22:19Halldór Afi GK 222
Skrifað af Þorgeir 28.07.2020 11:29Sigurður Ve 15 á Makrilmiðunum
Skrifað af Þorgeir |
Eldra efni
Um mig Nafn: Þorgeir BaldurssonFarsími: 8620479Tölvupóstfang: thorgeirbald62@gmail.comHeimilisfang: Reynihlið 15 D 604 HörgárbyggðStaðsetning: HörgárbyggðUm: Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist SjávarútvegiTenglar
Flettingar í dag: 693 Gestir í dag: 64 Flettingar í gær: 1465 Gestir í gær: 61 Samtals flettingar: 887945 Samtals gestir: 45157 Tölur uppfærðar: 4.10.2024 09:28:55 |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is