11.01.2026 14:07

Baráttann um 200 milurnar

Baráttan fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar

Myndina tók Jón Páll Ásgeirsson úr varðskipinu Baldri þegar verið var að klippa trollið aftan úr breska togaranum Artic Vandal í . Freigátan Bacchante F-16 kemur engum vörnum við.

Deila

 

Eftir Hjálmar Jónsson

Um þessar mundir er hálf öld liðin frá því að þriðja og síðasta þorskastríðinu við Bretland lauk með útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur og algerum og óumdeildum sigri okkar Íslendinga og yfirráðum yfir fiskimiðunum við Ísland. Sannarlega mikið afrek hjá örþjóð á stærð við litla borg í Englandi að bera sigurorð af fyrrum heimsveldinu og flota þess, sem hafði allt frá því um miðja sextándu öld verið drottnari heimshafana.

 

Segja má með miklum rétti að útfærsla fiskveiðilögsögunnar hafi verið lokaáfanginn í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir sjálfstæði sínu. Baráttu sem hófst á fyrri hluta nítjándu aldar með Baldvini Einarssyni, Fjölnismönnum og Jóni Sigurðssyni í Kaupmannahöfn, þjóðfundinum í Reykjavík 1851, stjórnarskrá úr hendi konungs okkar og konungs Dana á þeim tíma 1874, heimastjórn 1904, fullveldi 1918, stjórnmálalegu sjálfstæði 1944 og efnahagslegu sjálfstæði 1. júní 1976 með samningunum við Breta um lok þriðja og síðasta þorskastríðsins og viðurkenningu á 200 sjómílna efnahagslögsögu.

500 þúsund tonna þorskafli

Yfir 90% af útflutningstekjum þjóðarinnar komu frá fiskveiðum á þessum árum og þær hafa því verið undirstaðan undir velmegun og framþróun þjóðarinnar síðan þá. Það var lífsspursmál fyrir okkur Íslendinga að tryggja okkur yfirráð yfir fiskimiðunum í kringum landið, ekki bara vegna þess afla sem Bretar og aðrir fengu hér með veiðum á Íslandsmiðum og námu mörg hundruð þúsund tonnum á ári hverju, heldur einnig til þess að tryggja verndun fiskistofnanna á Íslandsmiðum.

 

Um gríðarlegt hagsmunamál Íslendinga var að ræða. Heildarþorskafli á Íslandsmiðum á árabilinu 1930-1960 var aldrei undir 300 þúsund tonnum á ári ef styrjaldarárin eru undanskilin. Sjaldnast var hann undir 400 þúsund tonnum og oft langt yfir 500 þúsund tonn. Á þeim tæpu tveimur árum sem þorskastríðin stóðu yfir er árlegur afli Breta á Íslandsmiðum einungis í tvígang undir 100 þúsund tonnum og oft um 150 þúsund tonn. Á sama tíma voru aðrar þjóðir, einkum Belgar og Vestur-Þjóðverjar að veiða hér oft í kringum 50 þúsund tonn. Óhætt er að segja að 30-40% af heildarþorskafla á Íslandsmiðum hafi verið veiddur af öðrum en Íslendingum á þessu tímabili.

 

 

Þorskafli á Íslandsmiðum hefur aldrei náð þeim hæðum sem hann var í um miðja síðustu öld og fram til níunda áratugs aldarinnar þegar kvótakerfið var sett á af illri nauðsyn. Árlegur úthlutaður heildarkvóti nær ekki 200 þúsund tonnum á ári. Þorskstofninn hefur ekki náð sér á strik aftur þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir til þess. Þannig eru Íslendingar enn að súpa seyðið af skefjalausu arðráni og nokkuð ljóst hvernig farið hefði ef Íslendingar hefur ekki farið í þessa baráttu fyrir landhelginni og yfirráðum yfir fiskistofnunum.

Sjálfsvörn smáþjóðar

„Aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu máli eru sjálfsvörn smáþjóðar sem á líf sitt og frelsi að verja. Að dómi ríkisstjórnarinnar byggjast þær auk þess á lögum og rétti. Í heimi samstarfs og vinahugar ættu Íslendingar því að mega treysta því að málstaður þeirra verði skoðaður með sanngirni. Það nægir Íslendingum. Ella er að taka því sem að höndum ber,” sagði Ólafur Thors, sem þá var atvinnumálaráðherra, í lok útvarpserindis til íslensku þjóðarinnar þegar reglugerð um verndun fiskimiða umhverfis Ísland kom út 19. mars 1952, en þar var landhelgin stækkuð úr þremur sjómílum í fjórar og miðaðist auk þess við grunnlínupunkta, en ekki strandlengju landsins.

 

Ólafur Thors var atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar 1950-1953. Landhelgin var stækkuð úr þremur sjómílum í fjórar árið 1952. MBL/ÓLAFUR K. MAGNÚSSON

Ólafur Thors var atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar 1950-1953. Landhelgin var stækkuð úr þremur sjómílum í fjórar árið 1952. MBL/ÓLAFUR K. MAGNÚSSON
© Morgunblaðið/Ólafur K. Magnú (Morgunblaðið/Ólafur K. Magnú)

 

Ólafur ítrekar þessa afstöðu í erindi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna rúmum sjö árum síðar þegar hann var orðinn forsætisráðherra og fyrsta þorskastríðið var í fullum gangi. Þar gerir hann árásir breskra herskipa á varðskip okkar á miðunum við Ísland að umtalsefni og segir einhliða að útfærsla lögsögunnar í 12 mílur hafi þótt „lífsnauðsyn vegna framtíðarhags og sjálfstæðis þjóðar minnar að hafast eitthvað að til að vernda megintekjulind hennar, fiskimiðin umhverfis Ísland. Efnahagur þjóðarinnar er algjörlega háður fiskveiðum og afurðir þeirra eru nú 95-97% af öllum útflutningi hennar til annarra þjóða.”

 

Trumanyfirlýsingin

Á fyrri hluta 20. aldarinnar var meginreglan í alþjóðahafrétti þriggja mílna lögsaga strandveiðiríkja. Þau sjónarmið tóku að breytast eftir seinni heimstyrjöldina, þar sem lögð var áhersla á ríkari rétt strandríkja til auðlinda landgrunnsins og fiskveiðiréttinda þar. Bandaríkin áskildu sér þannig rétt til auðlinda landgrunnsins undan ströndum Bandaríkjanna með svonefndri Trumanyfirlýsingu haustið 1945 og útfærsla landhelgi strandríkja og átök vegna hennar færðust í vöxt. Hér á landi var hafinn undirbúningur að setningu laga um landgrunnið og haustið 1947 var lagt fram frumvarp til laga um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Alþingi samþykkti frumvarpið einróma um vorið og varð það að lögum 5. apríl árið1948.

Í fyrstu grein laganna segir að sjávarútvegsráðuneytið skuli með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins þar sem allar veiðar skulu háðar íslenskum reglum og eftirliti. „Ráðuneytið skal einnig ákvarða allar þær reglur sem nauðsynlegar eru til verndar fiskimiðunum á ofangreindum svæðum. Ráðstafanir þessar skulu gerðar að fengnum tillögum Fiskifélags Íslands og Atvinnudeildar Háskóla Íslands. Reglugerðin skal endurskoðuð eftir því sem vísindalegar rannsóknir gefa tilefni til.”

 

Landgrunnslögin urðu síðan grunnurinn að aðgerðum Íslendinga í landhelgismálum næstu áratugina. Á grundvelli þeirra var samningum um þriggja mílna lögsögu sagt upp haustið 1949 með tveggja ára fyrirvara. Um vorið 1950 var landhelgin færð út í 4 sjómílur fyrir Norðurlandi og þá miðað við grunnlínur en ekki strandlengjuna, þannig að firðir og flóar voru þveraðir og 19. mars 1952 var gefin út reglugerð um 4 mílna fiskveiðilögsögu allt í kringum landið mælt frá grunnlínum og tók hún gildi 15. maí 1952.

Löndunarbann

Bretar brugðust ókvæða við enda um verulega hagsmuni fyrir fiskveiðiflota þeirra að tefla og um haustið settu útgerðarmenn í Hull og Grimsby löndunarbann á íslenska togara með þegjandi samþykki breskra stjórnvalda, þó það væri í trássi við þarlend lög. Löndunarbannið var verulegt högg fyrir íslenskar útgerðir og þjóðarbúið, enda fór mikill meirihluti afla íslenskra ísfisktogara á markað í Bretlandi.

Löndunarbannið olli Íslendingum verulegum búsifjum og áhyggjum til að byrja með, en þeim varð það til happs að Sovétríkin gerðu við þá vöruskiptasamning ári seinna,1953. Þeir keyptu af Íslendingum síld og frosinn fisk sem fengu í staðinn olíu og ýmsan vélbúnað. Þarna nutu Íslendingar, eins og oft síðar, legu landsins mitt milli stórveldanna, og þeirra aðstæðna sem ríktu í alþjóðamálum þann tíma sem þorskastríðin þrjú stóðu yfir, auk þess sem vera landsins í NATO og herstöðin í Keflavík, reyndust þjóðinni mikilvæg vogarstöng í deilunum við Breta.

 

Löndunarbannið stóð í fjögur ár áður en því var aflétt haustið 1956. Þróunin í hafréttarmálum á þessum tíma hafði verið Bretum í óhag og 4 mílur og mun víðari lögsaga var ofarlega á baugi. Þannig gerðu strandríkin á vesturströnd Suður-Ameríku kröfu um 200 mílna landhelgi á þessum tíma og Sovétríkin færðu út fiskveiðilögsögu sína í Barentshafi í 12 sjómílur. Bretar þráuðust við og gáfu ekki eftir fyrr en í fulla hnefana. Þá voru hins vegar ný viðhorf uppi og ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sem tók við völdum 1956 lýsti yfir að hún stefndi að útfærslu landhelginnar í 12 mílur.

Það var og gert og tók útfærslan gildi 1. september 1958. Í kjölfarið sigldu hörð átök við Breta næstu þrjú árin með þátttöku breska sjóhersins, sem reyndi að verja bresku togarana fyrir afskiptum skipa íslensku landhelgisgæslunnar. Ísland og Bretland voru bæði innan NATO og það þótti afar sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að eitt ríki innan NATO beitti annað NATO ríki hernaðarlegu ofbeldi. Íslendingar nýttu sér þá aðstöðu vel og létu liggja að og jafnvel hótuðu oftar en einu sinni úrsögn úr NATO.

Greindarvísitala Íslendinga 111

Andrew Gilchrist, sem var sendiherra Breta á Íslandi á þessum árum og skrifaði bókina „Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim” um veru sína hér á landi, gerir þar einmitt að umtalsefni hversu lagnir Íslendingar voru að nýta þessa stöðu í alþjóðamálum sér til framdráttar og til þess að draga tennurnar úr breska ljóninu. Hann ber Íslendingum annars afar vel söguna og af bók hans má greinilega ráða að hann hefur notað tíma sinn hér vel til þess að kynna sér sögu og menningu landsins. Auk þess eignaðist hann fjölda vina og kunningja, einkum á hinu stjórnmálalega sviði. Til marks um hæfni Íslendinga í þessum efnum segir hann segir meðal annars að ef meðalgreindarvísitala Evrópubúa sé 100 þá sé meðalgreindarvísitala Kínverja 110 og Íslendinga 111!

 

Sir Andrew Gilchrist, sendiherra Breta á Íslandi 1957-1959, skrifaði bókina

Sir Andrew Gilchrist, sendiherra Breta á Íslandi 1957-1959, skrifaði bókina „Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim” um veru sína hér á landi.

 

Þessu fyrsta þorskastríði okkar Íslendinga lauk með samningum snemma árs 1961. Bretar viðurkenndu 12 mílna landhelgi Íslands gegn þriggja ára aðlögunartíma þar sem þeir mættu veiða innan lögsögunnar, en það var bundið takmörkunum varðandi veiðisvæði og árstíma. Það sem mestum ágreiningi olli í samningnum var ákvæði um málskotsrétt til Alþjóðadómstólsins í Haag yrði af frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Viðreisnarstjórnin var komin til valda á þessum tíma og stjórnarandstaða Framsóknarflokks og Alþýðubandalags fordæmdi ákvæðið um málskotsréttinn. Ákvæðið átti eftir að valda okkur vanda við síðari útfærslu lögsögunnar á áttunda áratugnum. Íslenska þjóðin virtist almennt sátt við niðurstöðuna og Bretar litu þannig á að Íslendingar hefðu unnið stórsigur í deilunni og fengið sitt fram.

 

Ný vinstri stjórn tók við völdum hér á landi undir forystu Framsóknarflokksins árið 1971 eftir 12 ára samfellda stjórnarsetu Viðreisnarstjórnarinnar. Helstu kosningaloforð hennar var útfærsla landhelginnar í 50 mílur og brottför bandaríska herliðsins frá Miðnesheiði. Alþingi samþykkti einróma að færa landhelgi Íslands út í 50 mílur einhliða 1. september 1972 og hafna málskotsrétti til Alþjóðadómstólsins í Haag, þrátt fyrir ákvæðið þar að lútandi. Bretar höfnuðu rétti Íslendinga til einhliða útfærslu með öllu og samningaviðræður um sumarið voru árangurslausar.

Klippurnar

Við tók rúmlega árs barátta og viðsjár á miðunum við Ísland. Nýtt vopn hafði bæst í vopnabúr Íslendinga, þ.e.a.s. klippurnar sem varðskipin notuðu til þess að klippa á togvíra bresku togaranna. Það vopn reyndist afar áhrifaríkt og beittu varðskipsmenn því óspart. Þegar upp var staðið höfðu íslensku varðskipin klippt á togvíra 64 breskra togara og 15 vesturþýskra.

 

Halldór Nellett við togvíraklippurnar um borð í varðskipinu Baldri. Mynd/Jón Páll Ásgeirsson

Halldór Nellett við togvíraklippurnar um borð í varðskipinu Baldri. Mynd/Jón Páll Ásgeirsson

 

Bretar sendu fyrst dráttarbáta á Íslandsmið til að aðstoða og vernda bresku togarana og þegar það dugði ekki til komi til kasta sjóhers hennar hátignar vorið 1973. Átökin voru afar hörð og beittu íslensku varðskipin fallbyssum sínum til að stöðva för togara og oftar en ekki reyndu bresku dráttarbátarnir ásiglingar á íslensku varðskipin.

 

Íslensk stjórnvöld töldu óþolandi að breski sjóherinn væri innan landhelginnar og jöfnuðu því við árás eins bandalagsríkis á annað. Málið var meðal annars rætt á leiðtogafundi Richards Nixons, forseta Bandaríkjanna og Georges Pompidou Frakklandsforseta hérlendis í sumarbyrjun 1973. Kom fram að Íslendingar myndu aldrei gefa eftir í landhelgismálinu. „Ég sat þarna stjarfur af undrun. Hér höfðum við 200 þúsund manna eyþjóð sem hótaði því að fara í stríð við 50 milljóna manna stórveldi út af þorski,” rifjaði Henry Kissinger, þáverandi þjóðaröryggisráðgjafi Nixons og síðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna upp síðar.

 

Georges Pompidou Frakklandsforseti og Richard Nixon Bandaríkjaforseti hittust á fundi í Reykjavík um mánaðamótin maí-júní 1973, á Kjarvalsstöðum. Þar bar á góma útfærsla landhelgi Íslands og átök tveggja Nato-ríkja. MYND/MBL/ÓLAFUR K. MAGNÚSSON

Georges Pompidou Frakklandsforseti og Richard Nixon Bandaríkjaforseti hittust á fundi í Reykjavík um mánaðamótin maí-júní 1973, á Kjarvalsstöðum. Þar bar á góma útfærsla landhelgi Íslands og átök tveggja Nato-ríkja. MYND/MBL/ÓLAFUR K. MAGNÚSSON
© Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon (Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon)

 

Það var ekki fyrr en Íslendingar hótuðu að slíta stjórnmálasambandi við Bretland að breski sjóherinn fór út úr landhelginni um haustið og í kjölfarið náðust bráðabirgðasættir í deilunni. Bretar fengu kvóta í tvö ár upp á 130 þúsund tonn hvort árið, samkvæmt nánari reglum. Bretar viðurkenndu ekki 50 mílna lögsögu formlega, en réttur Íslendinga til eftirlits og löggæslu var viðurkenndur.

200 sjómílur verða ofan á

Þess var þó skammt að bíða að aftur drægi til tíðinda á Íslandsmiðum. Hafréttarmál voru í örri þróun og sjónarmið um 200 sjómílna efnahagslögsögu voru að verða ofan á í heiminum. Á hafréttarráðstefnu í Caracas í Venesúela 1974 og á framhaldsráðstefnu í Genf 1975 náðist að vísu ekki samkomulag um það, en það var engu að síður orðið ríkjandi sjónarmið meðal velflestra þeirra þjóða sem áttu hagsmuna að gæta. Bretar voru meira að segja farnir að átta sig á að þeir voru að berjast fyrir glötuðum málstað og áhersla þeirra var að færast yfir á það að reyna að standa vörð um sjónarmið varðandi sögulegan rétt þjóða sem veitt höfðu áratugum eða árhundruðum saman á fjarlægum miðum. Þar að auki hefði brotthvarf þeirra af Íslandsmiðum þýtt dauðadóm yfir útgerðarbæjunum á austurströnd Englands og andstaða þar því mikil við tilslakanir af hálfu breskra stjórnvalda.

 

George Schultz fjármálaráðherra og Henry Kissinger þjóðaröryggisráðgjafi Nixons á Kjarlvalsstöðum 1973. Kissinger rifjaði sjálfur upp síðar:

George Schultz fjármálaráðherra og Henry Kissinger þjóðaröryggisráðgjafi Nixons á Kjarlvalsstöðum 1973. Kissinger rifjaði sjálfur upp síðar: „Ég sat þarna stjarfur af undrun. Hér höfðum við 200 þúsund manna eyþjóð sem hótaði því að fara í stríð við 50 milljóna manna stórveldi út af þorski.” MYND/MBL/ÓLAFUR K. MAGNÚSSON
© Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon (Morgunblaðið/Ólafur K Magnússon)

 

Svört skýrsla um ástand botnfisktegunda á Íslandi kom út sumarið 1975, sem sýndi ljóslega að óheft sókn undanfarna áratugi með stórtækum atvinnutækjum hafði stefnt fiskistofnunum í mikla hættu. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur og verndun fiskistofnanna þoldi því enga bið og 15. júlí 1975 var gefin út reglugerð um útfærslu lögsögunnar að liðnum þremur mánuðum, nema gagnvart Bretum vegna samningsins frá því tveimur árum áður. Útfærslan gagnvart þeim tók gildi frá og með 14. nóvember.

 

Stysta og harðasta deilan

Í kjölfarið sigldi stysta en jafnframt harðasta fiskveiðideilan við Breta, þar sem Íslendingar beittu klippunum eins og kostur var, en breski sjóherinn ítrekuðum ásiglingum á íslensku varðskipin. Mikil mildi má telja að ekki varð manntjón í þessum átökum veturinn 1975-1976, því svo harðvítug voru þau og sótt af mikilli kappsemi af beggja hálfu. Eftir á að hyggja var það líka happ að ekki tókst að semja í deilunni um veturinn, því þá er næsta víst að breski togaraflotinn hefði verið lengur á Íslandsmiðum, en reyndin var þegar upp var staðið.

Í framhaldi af því að breski flotinn sigldi inn í íslenska lögsögu til þess að vernda bresku togarana létu íslensk stjórnvöld verða af því að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Það var afdrifaríkt skref og án fordæma í samskiptum tveggja NATO ríkja. Hápunkti náðu átökin á miðunum 6. maí þegar freigátan Falmouth sigldi í tvígang á Tý þannig að varðskipið lagðist á hliðina svo litlu mátti muna að það sykki. Alls urðu að minnsta kosti 54 árekstrar í átökunum á miðunum og 22 freigátur breska heimsveldisins voru í lengri og styttri tíma á miðunum við Ísland þennan vetur.

 

Þegar hér var komið sögu var orðið ljóst að varla yrði haldið lengra áfram á þessari braut og samherjar okkar innan NATO lögðu áherslu á að sættir tækjust. Einkum voru Norðmenn þar framarlega í flokki, en auk þess stóðu Bretar frammi fyrir því á heimaslóð og í samningum við Efnahagsbandalag Evrópu að 200 mílna efnahagslögsaga var niðurstaðan. 1. júní 1976 var undirritaður samningur um lok fiskveiðideilunnar í Ósló, þar sem Bretar viðurkenndu 200 sjómílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. 24 togarar þeirra máttu veiða innan lögsögunnar næstu sex mánuði. Síðasti breski togarinn hvarf af Íslandsmiðum í lok nóvember það ár og hafa ekki verið þar síðan. Þar með lauk 500 ára sögu útgerðar enskra fiskiskipa á Íslandsmiðum.

Helstu heimildir:

Guðni Th. Jóhannesson: Þorskastríðin þrjú; Saga landhelgismálsins 1948-1976; Hafréttarstofnun Íslands 2006. Sir Andrew Gilchrist: Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim; Almenna bókafélagið 1977. 126. löggjafarþing 2000-2001. Þskj. 679 – 335. Mál: Svar sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um löndun á þorski erlendis sem veiddur var á Íslandsmiðum og stærðarflokkun þorskaflans á árunum 1930-1980.

Heimild fiskifrettir.is 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

09.01.2026 10:55

Komið til hafnar í á Akureyri

         Þær oft kaldafýla þegar smábátar koma I land hérna ma sjá Sævar koma til hafnar mynd Þorgeir Baldursson 

06.01.2026 11:42

Aflaskip á útleið

                               1937. Björgvin EA 311 á útleið frá Dalvik mynd þorgeir Baldursson 

 

31.12.2025 19:42

Áramótakveðja

         2891 Kaldbakur Ea 1 er hérna i Brælu á Vestfjarðamiðum á haustmánuðum mynd Þorgeir Baldursson

Ég vil óska öllum þeim sem að hafa heimsótt skipasiðuna Gleðilegs árs og friðar með þökkum fyrir heimsókninirnar á árinu Þorgeir Baldursson 

26.12.2025 21:34

þrumur og eldingar á Atlandshafi

     Það er ekki alltaf blíða á Atlandshafi eins og myndin ver með sér mynd Þorgeir Baldursson 

07.12.2025 23:04

Síldarvertíð á lokametrum - fara næst á kolmunna

Síldarvertíð á lokametrum - fara næst á kolmunna

                                          Beitir NK á leiðinni á síldarmiðin. Mynd/Jón Steinar Sæmundsson 2025 

 

Nú líður að lokum veiða á íslenskri sumargotssíld vestur af landinu. Börkur NK kom til Neskaupstaðar með 1.650 tonn á miðvikudag og Beitir NK kom á laugardag með 1.650 tonn. Barði NK er nú í sinni síðustu veiðiferð á síldarvertíðinni en veður hefur töluvert truflað veiðar hans.

 

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki, sagði að túrinn hefði gengið þokkalega.

„Við fengum aflann í sjö holum og það voru yfirleitt 200 – 300 tonn sem fengust í hverju holi. Við hófum veiðarnar á Látragrunni en síðan var farið suður á Wilson og í Kolluálinn. Það er varla hægt að segja að hafi verið kraftur í þessum veiðum en þetta var þó alls ekki slæmt,” sagði Hjörvar.

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, hafði svipaða sögu að segja.

„Aflann fengum við utan við Kolluálinn. Holin voru sex talsins og aflinn sem fékkst í þeim var misjafn eða frá 80 tonnum og upp í 500. Síldin sem þarna veiddist var fín. Þetta er 280 – 290 gramma síld. Nú er þessari vertíð lokið hjá okkur,” sagði Tómas.

Börkur hélt til kolmunnaveiða að lokinni löndun á laugardaginn og Beitir mun væntanlega gera það í kvöld.

06.12.2025 09:35

Veiðigjald í þorski hækkar um 90%

                         2881 Venus Ns 150 á siglingu á Eyjafirði mynd þorgeir Baldursson 2025 

Veiðigjald á makríl hækkar um 151% á næsta ári, í þorski verður hækkunin ríflega 90%. Alls hækkar veiðigjald í átta fisktegundum árið 2026

samanborið við árið í ár, en lækkar í níu tegundum. Auglýsing atvinnuvegaráðuneytisins um veiðigjöld næsta árs var birt í Stjórnartíðindum í gær.

Í samtali við Morgunblaðið kveðst Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra telja að veiðigjaldið skili 15 milljörðum króna í ríkissjóð á næsta ári.

 

 

„Ég talaði alltaf skýrt um það að markmiðið væri leiðrétting gjaldstofnsins, þannig að við færum sem næst raunverulegu markaðsverði þeirra fisktegunda sem voru undir,“ segir Hanna Katrín.

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims hf. gagnrýnir í samtali við Morgunblaðið skort á fyrirsjáanleika við álagningu veiðigjalda. Óþægilegt sé að vinna í umhverfi þar sem veiðigjald hækki um 90% í einni tegund en lækki um 60% í annarri.

03.12.2025 00:06

Hitti björgunarmann sinn eftir 54 ár

Hitti björgunarmann sinn eftir 54 ár

Þorsteinn og Sævar sögðu það hafa verið mikla gleðistund þegar .

Þorsteinn og Sævar sögðu það hafa verið mikla gleðistund þegar þeir hittust 54 árum eftir slysið sem varð um borð í Barða. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Smári Geirsson

Heimild Heimasiða Sildarvinnslunnar 

Ljósmyndir Smári Geirsson og Guðmundur Sveinsson 

Fimmtudaginn 27. nóvember hittust Þorsteinn Vilhelmsson og Ómar Sævar Hreinsson, jafnan kallaðan Sævar, í fyrsta sinn rúmum 54 árum eftir alvarlegt slys sem varð um borð í skuttogaranum Barða NK sumarið 1971.

Þar bjargaði Þorsteinn lífi Sævars þegar hann náði taki á honum á síðustu stundu og hindraði að hann færi fyrir borð. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er sagt frá endurfundi þeirra félaga, sem þeir lýsa báðir sem mikilli gleðistund.

„Hljóð sem aldrei hverfur úr minninu“

Í frétt Síldarvinnslunnar er rifjað upp að árið 1970 hafi orðið tímamót í íslenskri útgerðarsögu þegar fyrirtækið festi kaup á skuttogaranum Barða, um 300 tonna skipi sem kom fyrst til heimahafnar í Neskaupstað 14. desember sama ár. Barði hélt svo fyrst til veiða 11. febrúar 1971 eftir endurbætur.

Sumarið 1971 fékk hinn 19 ára gamli Þorsteinn Vilhelmsson pláss á Barða en Þorsteinn varð síðar þekktur skipstjóri og einn eigenda Samherja. Pabbi Þorsteins hafði milligöngu um plássið og ók honum austur, enda sjálfur forvitinn um þennan nýja togara.

„Í sannleika sagt þá sönnuðu þessir fyrstu skuttogarar sig strax og ég var alsæll að fá að kynnast þarna vinnubrögðunum um borð í þeim,” segir Þorsteinn í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar. „Ég lærði mikið um borð í Barða og þarna fékk ég fyrst tekjur sem orð voru á gerandi. Þessar tekjur björguðu mér í stýrimannanáminu veturinn eftir.“

Um borð í Barða kynntist hann Sævari sem þá var 17 ára, en þeir félagar unnu mikið saman. Á einni vaktinni, þegar verið var að taka troll við Hvalbakinn, voru þeir Þorsteinn og Sævar að taka á móti toghleranum bakborðsmegin og ganga frá honum. Þorsteinn lýsir því sem næst gerðist:

„Allt í einu strekkist á vírnum og hann skellur á bringunni á Sævari með heljarafli. Við höggið tekst Sævar á loft, þeytist yfir lunninguna og hafnar í skutrennunni. Hann skellur með höfuðið í rennuna og ég man enn þá hljóðið sem heyrðist þegar höfuðið skall í. Það er hljóð sem aldrei hverfur úr minninu.“

Þorsteinn gaf sér engan umhugsunartíma heldur hentist hann niður rennuna á eftir Sævari og náði taki á honum rétt áður en hann skall í sjóinn. „Mér finnst í reyndinni ótrúlegt að við skyldum ekki báðir renna í sjóinn en svo heppilega vildi til að rennan var þurr og veður gott og líklega var það okkur báðum til lífs. Ef við hefðum lent í sjónum hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum enda trollið aftan í skipinu.“

Þorsteinn og Sævar unnu saman um borð í Barða NK-120 .

Þorsteinn og Sævar unnu saman um borð í Barða NK-120 en hann var fyrsti hefðbundni skuttogarinn í eigu Íslendinga. Ljósmynd/Guðmundur Sveinsson

Þorsteinn fór samstundis að fikra sig upp rennuna og draga Sævar með sér. „Félagar okkar hafa ugglaust komið fljótt til aðstoðar þó að ég muni ekkert eftir því. Þegar upp á dekk var komið stumruðum við yfir Sævari og það var svo sannarlega óhuggulegt. Það blæddi úr öllum vitum hans. Það blæddi úr eyrum, nefi og munni og óhuggulegast var að það blæddi einnig úr augunum.“ Ljóst var að Sævar var höfuðkúpubrotinn en hann var borinn í koju. Strikið var tekið til Neskaupstaðar og Sævar sendur með hasti suður með sjúkraflugvél.

Þorsteinn segir að atvikið hafi seint liðið sér úr minni og hann hafi oft hugsað til Sævars og langað til að hitta hann á ný. Rúm hálf öld leið áður en af því varð, en sem fyrr segir hittust þeir fimmtudaginn síðasta, 27. nóvember. „Við hófum að ræða málin rétt eins og við gerðum á Barða fyrir rúmlega hálfri öld,“ sagði Þorsteinn.

Glímdi við eftirköstin alla ævi

Sævar starfar í dag sem pípulagningameistari í Neskaupstað. Sjálfur man hann takmarkað eftir slysinu en í mörg ár þurfti hann að glíma við eftirköst þess. „Ég fékk lýsingar á því hvað gerðist og það fer ekkert á milli mála að þarna bjargaði Þorsteinn lífi mínu og ég stend í ævarandi þakkarskuld við hann,“ segir Sævar.

Hann var meðvitundarlaus í þrjár vikur eftir slysið og móður hans, sem sat yfir honum allan tímann á Landakotsspítala, var sagt að búa sig undir það versta. Sævar kom læknunum ljóslega á óvart þegar hann rankaði við sér en hans beið langt bataferli og það var ekki fyrr en tveimur árum seinna sem hann gat byrjað að vinna á ný.

„Höfuðkúpubrotið leiddi til þess að ég missti jafnvægisskynið og hafði sífelldan svima. Þá missti ég lyktarskyn og bragðskyn. Bragðskynið kom að hluta til aftur en lyktarskynið hvarf endanlega. Heyrnin hvarf í eina tvo mánuði og kom aldrei fullkomlega til baka á hægra eyra. Ég þjáðist af höfuðverk árum saman, einkum þegar ég var á sjó. Ég glímdi einnig við það vandamál í ein sjö ár að þegar ég reis úr rúmi að morgni þá steinleið yfir mig. Þá ber að nefna að í fyrstu, eftir að ég komst til meðvitundar, var ég hálfmállaus.“

Sævar segist hafa kannað hvort hann fengi greiddar bætur en þær hafi ekki verið auðsóttar þar sem áverkarnir voru ekki sýnilegir útvortis.

Á þeirri rúmu hálfu öld sem leið segir Sævar að hugurinn hafi oft leitað til björgunarmanns síns. „Það var svo sannarlega ánægjulegt að hitta hann. Þorsteinn bjargaði lífi mínu og það er ekki hægt að gera meira fyrir nokkurn mann,“ sagði Sævar.

Að lokum má nefna að það sem leiddi Þorstein til Neskaupstaðar að þessu sinni var að sonur hans hafði fengið pláss á Blængi NK, frystitogara Síldarvinnslunnar. Taldi Þorsteinn réttast að keyra með soninn austur, rétt eins og faðir hans gerði árið 1971.

25.11.2025 06:26

Andlát Emil Páll Jónsson Skipaljósmyndari

Góður félagi hefur fengið hvildina þegar ég var búinn að vera með þessa siðu i nokkur ár fékk ég Emil Pál 

til að aðstoða mig við að halda henni lifandi sem að hann gerði svo sannarlega ferðast vitt og breytt 

um landið til að finna efni fyrir siðuna sem að blómstraði sem aldrei fyrr að leiðarlokum 

votta ég öllum ástvinum Emils Páls Jónssonar mina Dýpstu Samúð 

Þorgeir Baldursson 

Emil Páll Jónsson,

16.11.2025 22:47

Harpa Karen á Eyjafirði

Það var skemmtilegt verkefni að mynda Hörpu Karen á Eyjafirðii vikunni en eins og fram hefur komi er hún i eigu 

útgerðarfélagsins Brimklóar  báturinn er hinn glæsilegasti og gengur um 11 sjómilur að sögn skipstjórans 

Daviðs Haukssonar hérna koma nokkrar i viðbót 

                                                7899 Harpa Karen mynd þorgeir Baldursson Nóv 2025 

                                                         7899 Harpa Karen mynd þorgeir Baldursson Nóv 2025 

                                               7899 Harpa Karen mynd þorgeir Baldursson Nóv 2025 

                                                7899 Harpa Karen mynd þorgeir Baldursson Nóv 2025 

 
                                                  7899 Harpa Karen mynd þorgeir Baldursson Nóv 2025 

10.11.2025 22:57

Sjóstangveiði i Eyjafirði um borð i Nóa EA 611

                         Skipverjar á Nóa EA 611 Guðrún Kristjánsdóttir og Davið Hauksson á veiðum á Eyjafirði siðsumars mynd þorgeir Baldursson 

09.11.2025 23:32

"Ekk­ert annað en morðhót­un"

                       Einar Guðmundsson Eftirlitsmaður fiskistofu 

Heimild mbl.is 200 milur 

Hvað þýðir það að vera hótað að vera hent í sjóinn? Það er auðvitað ekkert annað en morðhótun,“ segir Jóhann Ásmundsson, sérfræðingur hjá veiðieftirliti Fiskistofu, í erindi sínu á ráðstefnu Háskólans á Akureyri um löggæslu og samfélagið.

Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa fundið sig í aðstæðum þar sem talað hefur verið niður til þeirra, þar sem þeir upplifa útilokun eða mismunun, veist hefur verið að þeim með orðum og athöfnum og þær aðstæður komið upp þar sem þeir hafa upplifað þrúgun og andlegt ofbeldi.

Þetta sýna niðurstöður frumathugunar Fiskistofu á upplifun veiðieftirlitsmanna á vettvangi svo ekki verður um villst. Frumathugunina afréð Fiskistofa að gera í kjölfar ráðstefnu á vegum stofnunarinnar þar sem mikið var rætt um andlega heilsu, þrúgandi aðstæður eftirlitsmanna og flókna hluti á borð við áreitni sem eftirlitsmenn hafa sagt frá.

Sjómaður greip til vopna og skaut á dróna

Frétt af mbl.is

Sjómaður greip til vopna og skaut á dróna

37.500 landanir í 60 höfnum

Jóhann Ásmundsson sagði frá niðurstöðum frumathugunarinnar á dögunum á ráðstefnu Háskólans á Akureyri um löggæslu og samfélagið.

Í samtali við mbl.is segir Jóhann að stofnunin hafi viljað fylgja eftir því sem kom fram á ráðstefnunni og einnig vekja athygli á hlutverki sínu og þeim störfum sem starfsfólk Fiskistofu sinnir í oft mjög flóknum aðstæðum.

Eftirlitsmenn Fiskistofu á vettvangi voru 19 bæði árin 2023 og 2024. Eftirlitsmönnum er ætlað að hafa eftirlit með reglum sem snúa að veiðum, vigtun, skráningu og meðferð afla og afurða. Fiskistofa kemur að sögn Jóhanns að 37.500 löndunum á ári í 60 höfnum. Segir hann stofnunina í raun reka fiskveiðistjórnunarkerfið og Fiskistofa og eftirlit hennar sé mikilvægur hlekkur svo kerfið sé trúverðugt.

Haft áhrif utan vinnu

Enn fremur sýna niðurstöðurnar að upplifun veiðieftirlitsmannanna hefur verið við aðstæður sem þeir komast ekki úr, t.d. um borð í skipi eða við eftirlit þar sem krafist er stöðugrar viðveru. Þeir hafa tilkynnt um erfið atvik á vettvangi og mál hafa legið á þeim persónulega og haft áhrif á þá utan vinnu.

Veiðieftirlitsmönnum finnst vanta farveg til að deila eða tjá sig um erfiða reynslu og að bregðast hefði mátt betur við þegar tilkynnt hefur verið um erfið atvik.

Þeir voru spurðir hvers konar úrræðum þeir beiti þegar þeir mæta erfiðum aðstæðum á vettvangi. Sögðust þeir allir beita hyggjuviti og/eða persónulegri reynslu og næmni.

4,8% minni þorskkvóta úthlutað í ár

Frétt af mbl.is

4,8% minni þorskkvóta úthlutað í ár

Skortir frekar sektarheimildir

Veiðieftirlitsmenn Fiskistofu hafa ekki valdheimildir en þótt þeir hafi ekki beinar valdheimildir segir Jóhann þá hafa eftirlitsheimildir sem hægt sé að beita með íþyngjandi hætti.

Að lokinni framsögu Jóhanns gafst gestum í sal tækifæri á að spyrja spurninga og sneri fyrsta spurningin einmitt að valdheimildum. Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, spurði hvort Fiskistofa hefði sóst eftir valdheimildum fyrir sína eftirlitsmenn.

Jóhann sagði Fiskistofu sem stofnun í raun ekki hafa skoðun á því. Sagði hann frá umræðu sem hafi verið uppi um sameiningu Fiskistofu við Landhelgisgæsluna og að kannski mætti auka samstarfið og að Fiskistofa fengi meiri stuðning frá gæslunni.

Sagði Jóhann meðal annars frá því að Fiskistofa hefði samið við Landhelgisgæsluna um að hún sæki veiðieftirlitsmenn ef upp koma aðstæður þannig að þeir upplifi sig óörugga um borð.

„Kannski skortir frekar sektarheimildir,“ sagði Jóhann.

Jóhann segir að innan Fiskistofu hafi verið talin ástæða til að reyna að fá einhverja mynd af því ástandi sem veiðieftirlitsmenn hafi upplifað á vettvangi.

„Við heyrum auðvitað eitthvað á kaffistofunni en þegar þetta er komið svona svart á hvítu, þá er þetta einhvern veginn staðfest,“ segir Jóhann og vísar þar til niðurstaðna frumathugunarinnar.

Framkvæmd frumathugunarinnar

Tekin voru viðtöl við 13 eftirlitsmenn sem byggð voru á stöðluðum spurningum sem öllum fylgdu þrjár undirspurningar:

  • Hefur þú lent í stöðu í vinnunni, þar sem talað er niður til þín?

Allir 13 veiðieftirlitsmenn sögðu að lítið hefði verið gert úr þeirra störfum á vettvangi. Allir sögðu þeir að á vettvangi hefði verið gert lítið úr Fiskistofu eða samstarfsmönnum þeirra og 10 af 13 eða um 77% sögðu að lítið hefði verið gert úr þeim persónulega.

  • Hefur þú verið útilokaður í vinnu á vettvangi eða þér mismunað á vettvangi?

Tólf af 13 eftirlitsmönnum, eða 92%, hafa upplifað sig óvelkomna á vettvangi, 11 af 13, eða tæp 85%, hafa upplifað að þeim hafi verið sýnt fálæti og þeir verið útilokaðir eða einangraðir.

  • Hefur verið veist að þér persónulega með orðum og athöfnum á vettvangi?

Ellefu af 13 eftirlitsmönnum, eða tæp 85%, sögðust hafa setið undir reiðilestri og dylgjum, 9 af 13 eftirlitsmönnum eða 69% hafa upplifað ögrun, ógnun eða hótun á vettvangi og 4 af 13 eða 31% hefur verið hótað líkamsmeiðingum.

  • Hefur þú upplifað þrúgun eða lent í ofbeldi á vettvangi?

Tólf af 13, eða 92%, hafa upplifað þrúgun eða spennu á vettvangi sem og andlegt ofbeldi. Enginn hefur upplifað líkamlegt ofbeldi.

Skemmst er þó að minnast þess er þremur byssuskotum var skotið á dróna sem eftirlitsmaður Fiskistofu notaðist við er hann sinnti eftirliti í nóvember á síðasta ári. Verknaður sem gæti fallið undir brot gegn valdstjórninni. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu er það mál í eðlilegu ferli.

Undantekning en ekki regla

Jóhann tekur fram að eftirlitsmenn hafi allir talað um í viðtölunum að þau tilvik sem varpað er ljósi á í frumathuguninni séu undantekningartilvik.

Segir hann sína upplifun af þessu ástandi þá að kannski hafi þetta bara alltaf verið svona eða a.m.k. gerst yfir langan tíma og viðhorf skipstjóra, sjómanna og annarra á vettvangi til eftirlitsmanna hafi verið látið óátalið.

„Ef eitthvað er ekki fordæmt opinberlega, þá færast línurnar. Ég held að þetta vilji í raun enginn og þetta er ekki vinnuumhverfi sem neinn ætti að sætta sig við.“

Hvað þýðir að vera hótað að vera hent í sjóinn?

Jóhann ræðir aðstæður eftirlitsmanna sem eru einir úti á rúmsjó í allt frá nokkra daga og alveg upp í mánuð eða lengur meðal heillar áhafnar manna þar sem þessi neikvæðu viðhorf kannski ríkja eða á minni bátum þar sem þau ríkja ekki síður.

„Hvað þýðir að vera hótað að vera hent í sjóinn? Það getur þýtt bara svona, „æi þegiðu“ en einhverjir hafa upplifað slíkt bara mjög sterkt.

Það er auðvitað ekkert annað en morðhótun og upplifunin getur verið mjög raunveruleg fyrir marga,“ segir Jóhann.

Hann segir augljóst að menn hafi upplifað að þeim hafi verið ógnað í orði og athöfnum og í aðstæðum sem þeir komast ekki úr.

„Einir á meðal fjölda manna sem beina spjótum sínum að þeim,“ segir Jóhann og gefur í skyn að það geti varla verið þægilegt.

Jóhann segir að það þurfi að taka samtalið og það sé það sem verið sé að gera nú.

„Þetta er eflaust eitthvað sem við hjá Fiskistofu getum skoðað betur hjá okkur. Í eðli sínu er eftirlit eitthvað sem menn vilja kannski ekki að haft sé með þeim en enginn vill koma nálægt fiskveiðistjórnunarkerfi ef ekkert eftirlit er haft með því.“

08.11.2025 17:44

Gert klárt fyrir vetrarlegu i Bótinni

Það voru næg Haustverkin i bótinn i dag verið að gera klárt fyrir vetrarlegu hérna koma nokkrar myndir 

 

            Skipverjar og Eigendur ásamt Aðstoðarfólki gerir Nóa EA 611 Klárann mynd þorgeir Baldursson 

                             Nói EA611 er glæsilegur Eikarbátur mynd þorgeir Baldursson 

07.11.2025 01:04

Neyðarkallinn verður seldur á Akureyri

Neyðarkallinn verður seldur næstu daga

Skapti Hallgrímsson - skapti@akureyri.net  05.11.2025 kl. 18:00

Guðrún Elísabet Jakobsdóttir og Ágústa Ýr Sveinsdóttir, félagar í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri,

seldu Neyðarkallinn við verslun Nettó í Hrísalundi í morgun. Mynd: Þorgeir Baldursson

Árleg sala Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Neyðarkallinum hófst í morgun. Björgunarsveitarfólk verður áberandi við fjölfarna staði næstu daga og í einhverjum sveitarfélögum verður gengið í hús.

Sölunni lýkur næstkomandi sunnudag, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

 

Hefð er fyrir því að forseti Íslands taki á móti Neyðarkalli á fyrsta söludegi og Halla Tómasdóttir kom að Elliðaánum í Reykjavík í morgun í þeim erindagjörðum ásamt eiginmanni sínum, Birni Skúlasyni. 

 

Að þessu sinni var það öflugur straumvatnsbjörgunarhópur sem flutti Neyðarkallinn yfir straumvatnið og afhenti forseta, segir í tilkynningu frá Landsbjörgu. Við tilefnið ítrekaði Halla mikilvægi sjálfboðaliðastarfs Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir samfélagið og vonaðist til að vel yrði tekið á móti sölufólki.

 


Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, og Björn Skúlason eiginmaður hennar þegar forsetinn tók á móti Neyðarkallinum í morgun.

Mynd: Landsbjörg/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Neyðarkallinn í ár er í hlutverki straumvatnsbjörgunarmanns „og þannig heiðrum við minningu góðs félaga,

Sigurðar Kristófers McQuillan Óskarssonar, sem lést í hörmulegu slysi við æfingar í straumvatni, fyrir rétt um ári síðan.

Það var gert í góðu samráði við fjölskyldu Sigurðar og björgunarsveitina Kyndil, sem hann veitti formennsku,“ segir í tilkynningu frá Landsbjörgu.

 

Árleg sala Neyðarkallsins er ein af stóru fjáröflunarleiðum björgunarsveitanna „og stendur undir eðlilegri endurnýjun björgunarbúnaðar og þjálfunar félaga björgunarsveita um land allt,“

segir í tilkynningunni.

heimild Akureyri.net

05.11.2025 23:12

Nær öll skip kominn aftur til veiða

                             Sildarvinnsluflotinn við bryggju i Neskaupstað mynd þorgeir Baldursson 

Öll skip Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir utan Barða NK eru komnar aftur á veiðar eftir vel heppnaða árshátíðarferð starfsmanna til Sopot í Póllandi.

Bergey VE og Vestmannaey VE héldu til veiða í gær og eru nú að toga á Víkinni en Gullver NS sigldi frá Seyðisfirði á mánudagskvöld og er nú við veiðar á Austfjarðamiðum.

Línuskipin tvö, Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, hafa verið úti fyrir suðausturlandi, togarinn Jóhanna Gísladóttir GK er komin á karfaveiðar í Víkurálnum og krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK hélt í róður frá Skagaströnd.

Frystitogarinn Blængur NK lagði af stað á miðin frá Neskaupstað í gær. Hann sigldi fyrst til veiða á Tangarflakinu en í morgun var hann kominn yfir á Gerpisgrunn. Uppsjávarskipin Beitir NK og Börkur NK fóru á síldarmiðin fyrir vestan land, í Jökuldýpinu og Kolluálnum, en veiðarnar hafa farið rólega af stað þar.

Barði mun slást í hópinn von bráðar og halda á síldarveiðar fyrir vestan landið.

Frystihús og salthús Vísis í Grindavík eru þegar komin á fullt skrið. Starfsfólk fiskiðjuversins í Neskaupsstað bíður þess að fá síld í hús en þá fara hjólin samstundis að snúast aftur þar á bæ.

Heimild Heimasiða SVN 

Eldra efni

Um mig

Nafn:

Þorgeir Baldursson

Farsími:

8620479

Heimilisfang:

Reynihlið 15 D 604 Hörgárbyggð

Staðsetning:

Hörgárbyggð

Um:

Fréttaritari Morgunblaðsins til sjávar og sveita og öll Almenn Ljósmyndun sem að tengist Sjávarútvegi

Tenglar

Flettingar í dag: 1686
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 1601
Gestir í gær: 5
Samtals flettingar: 2465752
Samtals gestir: 70501
Tölur uppfærðar: 11.1.2026 18:10:34
www.mbl.is