22. desember 2021 kl. 12:40
Polar Ammasak bar nafnið Beitir á árunum 2013-2015. Hér er hann við að leggjast að bryggju Hampiðjunnar í Neskaupstað. Mynd/Jón Einar Marteinsson
Polar Ammasak kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt til að taka veiðarfæri hjá Hampiðjunni en það mun halda til loðnuveiða á morgun
Skipið var áður í eigu Síldarvinnslunnar og bar nafnið Beitir á árunum 2013-2015.
Grænlenska skipið Polar Ammasak kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt til að taka veiðarfæri hjá Hampiðjunni en það mun halda til loðnuveiða á morgun. Grænlenska félagið Polar Pelagic festi nýverið kaup á skipinu en fyrir gerir það út uppsjávarskipið Polar Amaroq.
Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar sem á 33% eignarhlut í Polar Pelagic. Skipið var keypt af danska útgerðarfélaginu Gitte Henning A/S og bar nafnið Gitte Henning.
Í fréttinni segir að Polar Ammasak sé gamall kunningi því skipið var í eigu Polar Pelagic og bar nafnið Polar Amaroq á árinu 2013. Í lok þess árs festi Síldarvinnslan síðan kaup á því og fékk það þá nafnið Beitir.
Skipið var í eigu Síldarvinnslunnar fram á árið 2015 en þá gekk það upp í kaupin á núverandi Beiti sem keyptur var af danska útgerðarfélaginu Gitte Henning og hafði einmitt borið það nafn. Þegar danska útgerðarfélagið hafði tekið við skipinu í skiptum fékk það nafnið Gitte Henning.
Polar Ammasak bar nafnið Beitir á árunum 2013-2015. Ljósm. Hákon Ernuson
Polar Ammasak var smíðað árið 1997 og er 2.148 brúttótonn að stærð. Skipið er búið tveimur aðalvélum og er hvor þeirra 3.260 hestöfl. Burðargetan er 2.200 tonn. Skipið hefur verið mikið endurnýjað á síðustu árum. Skipstjóri á Polar Ammasat verður Geir Zoëga. Geir segist vera afar ánægður með þessi skipakaup og spenntur fyrir komandi loðnuvertíð.
Polar Amaroq kemur til Neskaupstaðar í nótt og er ráðgert að bæði skipin veiði loðnu um hátíðirnar, segir í fréttinni.
|
2862 Beitir Nk 123 mynd þorgeir Baldursson 2015 |